Wednesday, August 11, 2010

Íslendingum fjölgar hratt á litlu norsku eyjunni Myken

Verður maður ekki setja viðtalið við Hafsteinn sem kom í morgunblaðinu hér inn..

Þegar Hafsteinn Ásgeirsson kom fyrst til eyjunnar Myken við Norður-Noreg í fyrrahaust óraði hann ekki fyrir því að tæpu ári síðar yrði hann sestur þar að ásamt Kristínu Árnadóttur eiginkonu sinni. Nú sjá þau um nær alla flutninga til og frá þessari litlu eyju, og taka brátt við verslun og póstafgreiðslu.

Hafsteinn þekkir ágætlega til í Noregi en börn hans tvö eru bæði búsett norður af Tromsö og sjálfur vann hann við farmflutninga við Noregsstrendur árið 2008.

„Ég sá umfjöllun í Morgunblaðinu þar sem óskað var eftir fólki sem hefði áhuga á því að taka við ferjunni hér við Myken-eyju. Þar sem við hjónin vorum á leiðinni til Noregs í ferðalag ákváðum við að kynna okkur aðstæður,“ segir Hafsteinn sem heillaðist strax af rólegu og vinalegu yfirbragði eyjunnar. „Þrátt fyrir suðvestan rok og leiðindaveður leist mér vel á staðinn í þessari fyrstu heimsókn. Eyjarskeggjar tóku okkur hjónum opnum örmum sem leiddi til þess að ég tók að mér að finna Íslendinga til að vinna á eyjunni,“ segir Hafsteinn. Engir Norðmenn höfðu fengist til að taka við ferjurekstrinum og úr varð að Hafsteinn tók hann að sér. Fyrirfram hafði hann þó engan sérstakan hug á því að setjast þarna að enda í góðu starfi. En tengslin við eyjuna voru komin til að vera og eitt leiddi af öðru.

„Ferjustarfið eitt og sér var ekki nægileg ástæða til að flytja út en þegar við sáum að verslunarreksturinn var laus var kominn grundvöllur fyrir því að setjast að á Myken.“

Bróðir Kristínar áformar nú að flytja til Myken með fjölskyldu sinni.

Spurt & svarað
Hvar er Myken?

Myken er lítil eyja við Norður-Noreg. Eyjan liggur rétt 25 kílómetrum neðan við heimskautsbaug. Rúmlega 20 manns hafa þar fasta búsetu og þar af eru átta Íslendingar. Á sumrin fer íbúatala þó vel yfir 160 manns þar sem margir hafa afdrep á Myken á sumrin. Fiskveiðar og -vinnsla eru aðalatvinnuvegir eyjaskeggja.

Tengingin við Ísland

Íslensk fjölskylda hefur sest að á eyjunni og sér nú um ferjuna, verslun og póstafgreiðslu á staðnum. Eyjarskeggjar höfðu lengi leitað árangurslaust eftir fólki til að taka við ferjurekstrinum og leituðu að lokum til Íslands.

Að auki hafa tveir íslenskir smiðir unnið þar í sumar við að gera upp gömul hús. Annar þeirra ætlar að flytja út með fjölskyldu sína en hann á þrjú börn með konu sinni. Þar með er kominn grundvöllur fyrir skólastarfi í eyjunni en útlit var fyrir að skólanum yrði lokað vegna fámennis. Íslendingarnir koma því sem sannkallaðir bjargvættir inn í þetta litla samfélag.

2 comments:

  1. Ég er alltaf að bíða eftir nýjum fréttum hérna af ykkur, hvernig gengur og svona. :)

    Hvernig líkar krökkunum úti, hvenær farið þið litlu mæðgur?
    Rakel.

    ReplyDelete
  2. Ég og Birgitta fljúgum snemma í fyrramálið og verðum komnar föstudagskveld út til Myken..Þaim finnst bara æði..skólinn byrjar svo á mánudagin næsta

    ReplyDelete